Körfubolti

Uconn vann háskólatitilinn í bandaríska körfuboltanum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Leikmenn UConn fagna í nótt.
Leikmenn UConn fagna í nótt.
Connecticut-háskólinn, eða Uconn Huskies, varð í nótt háskólameistari í körfubolta. Uconn lagði þá spútniklið Butler af velli, 53-41, í einum versta úrslitaleik í sögu keppninnar. Staðan í hálfleik var 22-19. Það var lélegasta hálfleiksstaða síðan 1946.

Eins og sjá má á skorinu voru leikmenn liðanna ekki beint heitir. Þá sérstaklega leikmenn Butler sem voru með rúmlega 18 prósent skotnýtingu. Þeir hittu aðeins úr 12 af 64 skotum sínum í leiknum.

Butler fékk ekki stig úr teignum fyrr en eftir 34 mínútur. 27 stig liðsins komu úr þriggja stiga skotum, 8 stig komu úr vítum og 6 stig úr tveggja stiga skotum. Það verður reyndar ekki tekið af leikmönnum Uconn að liðið spilaði frábæra vörn og setti met yfir flesta varða bolta í leik. Engu að síður var hittni leikmanna grátlega léleg rétt eins og gæði leiksins í heild.

Hinn 68 ára gamli þjálfari, Jim Calhoun, var að stýra Uconn til sigurs í þriðja skipti á ferlinum. Hann jafnaði þar með John Wooden, Adolph Rupp, Bobby Knight og Mike Krztzewski sem allir hafa unnið þrjá titla. Calhoun er elsti þjálfarinn sem nær að sigra þessa keppni.

Uconn var betra liðið á flestum sviðum. Það skoraði 26 stig gegn 2 í teignum. Vörnin varði 10 bolta og stal 4 boltum.

Þetta var annað árið í röð sem Butler kemst í úrslit þvert á spár sérfræðinga. Skólinn þarf þó að bíða aðeins lengur eftir því að vinna mótið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×