Viðskipti erlent

Ferrari bíll seldur á 1,9 milljarða

Ferrari Testa Rossa bifreið frá árinu 1957 var seld á uppboði í Kaliforníu um helgina fyrir 16,4 milljónir dollara eða tæplega 1,9 milljarða króna. Þetta er mesta verð sem borgað hefur verið fyrir bifreið í sögunni.

Í frétt um málið á CNN Money segir að uppboðsfyrirtækið, Goodings & Co., vilji ekki gefa upp hver kaupandinn var en segir að um sé að ræða þekktan bílasafnara með ástríðu fyrir ítölskum bílum.

Bíllinn sem hér um ræðir er af gerðinni Ferrari 250 Testa Rossa og sá fyrsti af þeirri gerð sem smíðaður var af Ferrari verksmiðjunum. Hann var síðan grunnurinn að öllum Testa Rossa gerðum Ferrari næstu árin á eftir.

Í þessum bíl er 12 strokka vél sem gefur frá sér 300 hestöfl. Bíll er beinskiptur, fjögurra gíra, og á að baki átta ára sögu á kappakstursbrautum Evrópu á sínum tíma. Hann hefur áður unnið til verðlauna sem fornbíll enda í toppstandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×