Körfubolti

Pau Gasol hélt Spánverjum á floti í naumum sigri í fyrsta leik á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pau Gasol í leiknum í dag.
Pau Gasol í leiknum í dag. Mynd/AFP
Spánverjar hófu í dag titilvörn sína á Evrópumótinu í körfubolta í Litháen með því að vinna nauma fimm stiga sigur á Pólverjum. Pau Gasol, leikmaður Los Angeles Lakers, fór fyrir sínum mönnum með 29 stigum og 7 fráköstum.

Gasol sem var stigahæsti maðurinn á vellinum skoraði 11 af 29 stigum sínum í fyrsta leikhlutanum. Juan Carlos Navarro skoraði 23 stig fyrir Spán og yngri bróðir Pau, Marc Gasol, var með 16 stig og 7 fráköst. Pólverjar minnkuðu muninn niður í tvö stig, 80-78, þegar aðeins 26 sekúndur voru eftir en Spánverjum tókst að landa sigrinum á vítalínunni.

Serbar, silfurliðið frá síðustu EM, unnu 80-68 sigur á Ítölum í sínum fyrsta leik, Svartfellingar unnu 70-65 sigur á Makedóníu og Georgía vann 81-59 sigur á Belgum. Tvær síðastnefndu þjóðirnar spiluðu einmitt við Ísland í Evrópukeppninni fyrir nokkrum árum og íslenska liðið vann meðal annars Georgíumenn í Höllinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×