Körfubolti

Frakkar enn ósigraðir - Finnar mæta Rússum í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Parker.
Tony Parker. Mynd/Nordic Photos/Getty
Frakkar héldu sigurgöngu sinni áfram á EM í körfubolta í Litháen í gær þegar þeir unnu 68-64 sigur á Tyrkjum. Frakkar hafa unnið alla sex leiki sína í keppninni til þessa og eru efstir í sínum milliriðli en keppni í hinum milliriðlinum hefst í dag.

Tony Parker skoraði 20 stig og gaf 5 stoðsendingar í fjögurra stiga sigri Frakka á Tyrkjum en Frakkar voru nærri því búnir að glutra niður fimmtán stiga froskoti á lokamínútunum. Parker setti niður 7 af 8 vítum sínum á síðustu 18 sekúndunum í leiknum.

Litháar rifu sig upp eftir tap á móti Spáni og unnu tíu stiga sigur á Serbum, 100-90. Jonas Valanciunas, sem verður nýliði hjá Toronto Raptors á næsta tímabili í NBA,skoraði 18 stig í leiknum og hitti úr 8 af 9 skotum sínum. Litháar hittu úr 11 af 20 þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Mantas Kalnietis skoraði 19 stig og gaf 7 stoðsendingar hjá Litháen og Sarunas Jasikevicius kom með 14 stig og 7 stoðsendingar af bekknum þrátt fyrir að spila bara í 18 mínútur. Nenad Krstick skoraði 21 stig fyrir Serbíu.

Frakkar eru efstir í milliriðli eitt með 3 sigra í 3 leikjum, Spánn og Litháen hafa unnið 2 leiki, Serbar og Tyrkir hafa unnið 1 leik en Þjóðverjar eru enn án sigurs. Fjögur efstu liðin komast í átta liða úrslitin.

Keppni í hinum milliriðlinum hefst í dag en þar mun Norðurlandameistarar Finna mæta Rússum klukkan 15.00. Rússar hafa ekki enn tapað leik á mótinu en Finnar tryggðu sér sæti í milliriðlinum með sigrum á Bosníu og Svartfjallalandi í þremur síðustu leikjum sínum í riðlinum.

Leikir dagsins á EM í körfubolta

Makedonía-Georgía 12.30 (að íslenskum tíma)

Rússland-Finnland 15.00

Grikkland-Slóvenía 18.00




Fleiri fréttir

Sjá meira


×