Körfubolti

Frakkar enduðu sigurgöngu Rússa og mæta Spánverjum í úrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Parker skoraði 22 stig fyrir Frakka í kvöld.
Tony Parker skoraði 22 stig fyrir Frakka í kvöld. Mynd/AFP
Frakkar eru komnir í úrslitaleik Evrópumótsins í fyrsta sinn eftir átta stiga sigur á Rússum í kvöld, 79-71, í undanúrslitunum á EM í körfu í Litháen. Frakkar mæta Spánverjum í úrslitaleiknum á sunnudaginn en Rússar spila á undan um bronsið við Makedóníumenn. Rússar voru búnir að vinna alla níu leiki sína á mótinu fyrir leikinn í kvöld.

Tony Parker skoraði 22 stig fyrir Frakka og Nicolas Batum var með 19 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar. Joakim Noah bætti við 7 stigum og 8 fráköstum og Nando de Colo var með 9 stig.  

Frakkar eru búnir að vinna alla þá leiki á mótinu sem Parker og Noah hafa spilað og franska liðið tryggði sér með þessum sigri sæti á Ólympíuleikunum í London.

Andrei Kirilenko var með 21 stig fyrir Rússa, Timofey Mozgov skoraði 12 stig og Viktor Khryapa var með 9 stig og 5 stoðsendingar.

Fyrsti leikhlutinn var jafn á flestum tölum. Rússar komust þremur stigum yfir, 8-11, en Frakkar svöruðu strax og jöfnuðu leikinn. Tony Parker kom Frökkum síðan einu stigi yfir, 17-16, fyrir lok leikhlutans með sínu níunda stigi í leiknum.

Liðin héldu áfram að skiptast á því að hafa forystuna í öðrum leikhlutanum þar til að Frakkar náðu 11-2 spretti og komust átta stigum yfir, 39-31. Rússar enduðu hálfleikinn á þriggja stiga körfu og minnkuðu muninn í fimm stig, 39-35.

Tony Parker var með 12 stig fyrir Frakka í fyrri hálfleiknum og miklu munaði að franska liðið setti niður 4 af 7 þriggja stiga skotum sínum. Andrei Kirilenko leiddi aftur á móti rússneska liðið í stigum (9), fráköstum (3) og stoðsendingum (2) í hálfleiknum.

Rússar skoruðu fimm fyrstu stig seinni hálfleiksins og jöfnuðu leikinn í 39-39. Andrei Kirilenko fékk þá sína þriðju villu í stöðunni 40-40 og þurfti að setjast á bekkinn. Frakkar nýttu sér fjarveru hans og náðu 8-0 spretti og leiddu síðan með átta stigum, 55-47, fyrir lokaleikhlutann.

Frakkar náðu tólf stiga forskoti í upphafi fjórða leikhlutans, 61-49 en það tók Rússa þó aðeins 47 sekúndur að koma muninum niður í sex stig, 61-55, og þeir voru ekki tilbúnir að gefast upp.

Kirilenko fékk sína fjórðu villu þegar sex mínútur voru eftir. Nicolas Batum og Tony Parker léku líka lausum hala á þeim kafla og munurinn fór strax aftur upp í tíu stig.

Rússar komu muninum niður í fimm stig, 69-64, þegar þrjár og hálf mínúta var eftir en nær komust þeir ekki og Frakkar urðu fyrstir til vinna þá á Evrópumótinu í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×