Viðskipti erlent

Nubo horfir til fleiri Norðurlanda

Huang Nubo, kínverski milljarðamæringurinn sem hefur stórhuga áform um ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum, segir í viðtali við Bloomberg fréttaveituna að hann hafi áhuga á frekari fjárfestingum í ferðaþjónustu annars staðar á Norðurlöndum.

Hann segist vera með fimm ára áætlun sem geri ráð fyrir því að hann komi upp starfsemi í Danmörku, Svíþjóð og í Finnlandi. Enn hefur ekki verið ákveðið hvort Nubo fái leyfi til að fjárfesta hér á landi en í viðtalinu við Bloomberg segist hann vonast til að íslensk stjórnvöld verði búin að ákveða sig inna hálfs mánaðar.

„Ef ég fæ leyfi til lóðarkaupanna á Íslandi, þá mun ég hefjast handa á hinum Norðurlöndunum,“ segir Nubo en tekur fram að áætlanirnar í hinum löndunum séu þó ekki af sömu stærðargráðu og verkefnið á Grímsstöðum.

Forbes tímaritið segir að Nubo sé metinn á um einn milljarð dollara, eða um 118 milljarða íslenskra króna. Í viðtalinu við Bloomberg segir hann að það sé stórlega vanmetið og bendir á að verslunarmiðstöð í hans eigu í Beijing sé ein og sér metin á 6,7 milljarða dollara, eða um átta hundruð milljarða íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×