Körfubolti

Gasol og Bynum ekki skipt fyrir Howard

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Howard í tapleiknum gegn Oklahoma City Thunder á jóladag
Howard í tapleiknum gegn Oklahoma City Thunder á jóladag MYND:AFP
Jim Buss segir ekki koma til greina að skipta miðherja og kraftfarmherja Los Angeles Lakers, Andrew Bynum og Pau Gasol, fyrir Dwight Howard miðherja Orlando Magic.

Howard verður með lausan samning næsta sumar og er búist við að hann muni yfirgefa félagið fyrir ekki neitt. Til að fá eitthvað fyrir Howard gæti Magic þurft að skipta honum en hann hefur óskað eftir því vera sendur frá félaginu.

Litlu munaði að Howard hefði verið skipt til New Jersey Nets fyrr í mánuðinum en hann hefur einnig verið þrálátlega orðaður við Los Angeles Lakers.

Jim Buss sonur eiganda LA Lakers, Jerry Buss, og hæstráðandi félagsins segir ekkert hæft í þeim sögusögnum að Lakers sé tilbúið að skipta bæði Andrew Bynum og Pau Gasol fyrir Howard.

"Ég skil ekki umræðuna um að það þurfi að bjarga liðinu. Við erum með þrjá stjörnuleikmenn og það þarf að bjarga okkur? Hvaðan kemur þetta bull?," spurði Jim Buss.

"Þú þarft að vera kjáni til að gefa tvo stjörnuleikmenn eins og þá fyrir Howard. Það er ekkert hæft í þessu. Við höfum ekki verið beðnir um að skipta Andrew og Pau og við höfum ekki boðið þá. Ég held að þeir [Magic] viti að við myndum segja nei eða þeir viti að þeir myndu hljóma kjánalega myndu þeir óska eftir þessum skiptum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×