Lífið

Nýtt efni frá Damon á netinu

Nýtt lag sem tónlistarmaðurinn Damon Albarn tók upp með Dan the Automator og Kid Koala gengur nú hratt á milli tónlistarunnenda á netinu. Lagið komst í umferð eftir að Kid Koala spilaði það í útvarpsþætti á þriðjudagskvöldið. Hægt er að sjá hann spila lagið í þættinum í myndbandinu hér fyrir ofan.

Tónlistarmennirnir hafa ekkert látið uppi um lagið eða önnur sem kunna að fylgja í kjölfarið en almennt er talið að það verði á væntanlegri sólóplötu Dan the Automator. Albarn vann með þeim tveimur að fyrstu plötu Gorillaz árið 2001.

Damon Albarn hefur annars látið lítið fyrir sér fara undanfarið. Hann og félagar hans í Blur virðast til að mynda ekki ætla að láta undan kröfum aðdáenda sveitarinnar um að hljóðrita nýja plötu. Albarn hefur hins vegar ákveðið að koma fram á tónlistarhátíðinni Manchester International Festival í sumar. Þar mun hann frumflytja nýtt verk sem hann vinnur í samstarfi við leikstjórann Rufus Norris. Verkið kallast Doctor Dee og fjallar um fræðimanninn og gullgerðarmanninn John Dee sem var trúnaðarvinur Elísabetar I. Albarn mun sjálfur syngja í verkinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×