Lífið

Madonna í hljóðver á ný

Madonna er byrjuð á nýrri plötu sem fylgir eftir hinni gríðarlega vinsælu Hard Candy. Hér er hún ásamt Lourdes, dóttur sinni.
Madonna er byrjuð á nýrri plötu sem fylgir eftir hinni gríðarlega vinsælu Hard Candy. Hér er hún ásamt Lourdes, dóttur sinni.
Poppdrottningin Madonna er byrjuð að taka upp nýja plötu. Þrjú ár eru liðin frá útgáfu síðustu plötu hennar, sem sló í gegn um allan heim.

Umboðsmaður Madonnu, Guy Oseary, tilkynnti á Twitter-síðu sinni á mánudag að söngkonan væri byrjuð að taka upp nýja plötu.

„Þetta er komið á hreint. Fyrsti dagur Madonnu í hljóðverinu og vinna að nýrri plötu er hafin. Mjög spennandi,“ skrifaði Oseary. Platan verður sú tólfta í röðinni frá Madonnu, sem gaf síðast út plötuna Hard Candy árið 2008. Ekkert bendir til þess að vinsældir Madonnu séu farnar að dala, enda fór síðasta plata á toppinn í 19 löndum, hvorki meira né minna og hefur selst í milljónum eintaka um allan heim.

Madonna, sem verður 53 ára í ágúst, virðist ekki ætla að setjast í helgan stein í bráð. Í kjölfarið á síðustu plötu fór hún í gríðarlega umfangsmikið tónleikaferðalag um heiminn og rakaði inn milljörðum. Búast má við að hún fylgi næstu plötu eftir á svipaðan hátt. Óvíst er hver mun vinna nýju plötuna með henni, en á síðustu plötu komu Justin Timberlake og upptökustjórateymið The Neptunes við sögu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×