Körfubolti

Jón Arnór: Ég hélt að krossböndin hefðu farið hjá mér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Mynd/Valli
Jón Arnór Stefánsson meiddist illa á hné í síðasta leik CB Granada á árinu og mun af þeim sökum missa af tveimur fyrstu mánuðum ársins 2011. Jón Arnór spilar stórt hlutverki í liðinu, sem sést vel á því að liðið steinlá með 27 stiga mun og skoraði aðeins 57 stig í fyrsta leiknum án hans í gær.

„Það er töluvert sjokk að lenda í þessu en þetta hefði getað verið verra. Ég slepp alveg við uppskurð og það er klárlega jákvæði hlutinn við þetta. Ég hélt að krossböndin hefðu farið hjá mér. Ég fann hnykk í hnénu en sem betur fer héldu þau einhvern veginn," sagði Jón Arnór.

„Einn af stóru strákunum í hinu liðinu datt á löppina á mér. Það var verið að stíga hann út og hann datt beint aftur fyrir sig og á mig. Við það rifnar liðbandið að innanverðu og liðþófinn skaddast líka. Þetta er samt sá hluti af liðþófanum sem grær af sjálfu sér og það þurfti ekki aðgerð þar heldur. Það var mikið lán í óláni," segir Jón Arnór en viðurkennir að hann hefur verið óheppinn með meiðsli síðan hann kom út til Granada.

Jón Arnór Stefánsson.Mynd/Heimasíða Granada
„Það er frekar stutt síðan ég lenti í bakmeiðslunum og þetta er algjör óheppni. Þetta var ekki eins og ég hefði stigið vitlaust í löppina sjálfur og rifið þetta heldur var þetta eitthvað sem ég lendi í. Þetta er frekar pirrandi en hvað getur maður gert? Þetta er bara hluti af þessu og maður styrkir sig bara og kemur góður til baka," segir Jón Arnór.

Jón Arnór felur samt ekki pirring sinn út í aðgerðaleysi forráðamanna félagsins. Granada hefur aðeins unnið 3 af fyrstu 14 leikjum sínum og situr í botnsæti deildarinnar.

„Ég orðinn svolítið pirraður á þessu. Raunveruleikinn er sá að við erum í neðsta sæti og það þarf heldur betur að breyta einhverju til þess að við getum farið að vinna einhverja leiki. Okkur sárvantar leikmenn og það hefur verið þannig hjá okkur í síðustu leikjum," segir Jón Arnór en að hans mati hafa stóru strákarnir í liðinu verið hrikalega daprir.

„Maður er ekkert rosalega bjartsýnn en þeir hljóta að fara að gera einhverjar breytingar og bæta við leikmönnum. Það þarf að gera það til þess að reyna að bjarga þessu en ef ekki þá er ekkert rosalega spennandi að vera hérna áfram," sagði Jón Arnór að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×