Körfubolti

Sundsvall Dragons vann toppslaginn á móti LF Basket

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson.
Hlynur Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson. Mynd/Valli
Sundsvall Dragons, lið þeirra Hlyns Bæringssonar og Jakobs Arnar Sigurðarsonar, vann mikilvægan 94-81 útisigur á LF Basket í toppslag sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta í kvöld.

Þetta var þriðji sigur Sundsvall í röð og sá sextándi í síðustu sautján leikjum. Liðið er nú með fjögurra stiga forskot á LF Basket auk þess að eiga einn leik inni.

Hlynur og Jakob skoruðu báðir tíu stig í leiknum, Hlynur var auk þess með 11 fráköst og 5 stoðsendingar en Jakob var líka með 5 fráköst og 4 stoðsendingar.

Sundsvall-liðið byrjaði leikinn frábærlega og var 31-18 yfir eftir fyrsta leikhlutann en LF Basket var búið að minnka forskotið í níu stig fyrir hálfleik, 47-38.

LF Basket vann fyrstu fimm mínútur síðari hálfleiksins 15-7 og náði að minnka muninn í 53-54. Hlynur skoraði þá stemmningskörfu og fékk víti að auki og Sundsvall skoraði á endanum átta stig í röð.

Sundsvall var 67-61 yfir fyrir lokaleikhlutann en LF Basket náð að jafna leikinn í 71-71 þegar sjö mínútur voru eftir. Sundsvall vann hinsvegar lokamínúturnar 23-10 og tryggði sér sigurinn.

Hlynur og Jakob voru allt í öllu þegar Sundsvall breytti stöðunni úr 71-71 í 90-74 á tæpum fjórum mínútum en þeir áttu saman fimm stoðsendingar (Jakob 3 og Hlynur 2) á þessum mikilvæga kafla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×