Körfubolti

Tröllatroðsla hjá Griner | ekki á hverjum degi sem kona treður í körfubolta

Brittney Griner, leikmaður háskólakörfuboltaliðsins Baylor, gerði sér lítið fyrir og tróð boltanum í körfuna í leik í úrslitakeppni NCAA deildarinnar gegn Florida. Griner, sem er 2.02 m á hæð, er aðeins önnur konan í sögu háskólakörfuboltans sem nær að troða boltanum í úrslitakeppninni. Alls skoraði Griner 25 stig í leiknum og Baylor landaði 76-57 sigri. Þess má geta að körfuhringurinn er í 3.05 metra hæð frá gólfi.

„Þetta var tröllatroðsla," sagði Kim Mulkey þjálfari Baylor eftir leikinn. Athygli vakti að hin 22 ára gamla Griner fagnaði ekki mikið eftir afrekið. Mulkey þjálfari sagði að margir hafi gagnrýnt Griner á undanförnum árum fyrir að einblína of mikið á þann þátt leiksins. „Hún vildi ekki fagna til þess að skapa ekki neikvæða umræðu. Ef ég hefði troðið boltanum í leik þá hefði ég reynt að taka heljarstökk alla leið í vörnina," sagði þjálfarinn.

Candace Parker fyrrum leikmaður Tennessee var sú fyrsta sem braut ísinn á þessu sviði. Hún tróð tvívegis í leik árið 2006. Samkvæmt bandarískri tölfræði er þetta í sjötta sinn sem Griner nær að troða í opinberum leik en Parker á metið, hún tróð alls sjö sinnum í opinberum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×