Körfubolti

Skoraði 113 stig í leik í Líbanon

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Mohammad El Akkari komst í sögubækurnar þegar hann skoraði 113 stig í einum og sama körfuboltaleiknum í deildarleik í Líbanon.

Þar með sló hann við goðsögninni Wilt Chamberlain sem skoraði 100 stig í leik með Philadelphia Warriors í NBA-deildinni árið 1962. Það met stendur enn í NBA-deildinni en Kobe Bryant komst næst því þegar hann skoraði 81 stig í leik með LA Lakers árið 2006.

Fram kemur í yfirlýsingu Alþjóðakörfuknattleikssambandsins að þetta sé í fyrsta sinn sem leikmaður skorar meira en 100 stig í deildarleik í Asíu.

Akkari leikur með Moutahed sem hafði betur í miklum stigaleik gegn Bejeeh í efstu deild í Líbanon, 173-141. Hann setti niður 32 þrista í leiknum en alls tók hann 59 þriggja stiga skot. Hann nýtti 40 af 69 skotum sínum í opnu spili og skoraði aðeins eitt stig af vítalínunni allan leikinn.

Akkari er 27 ára gamall og hafði fyrir leikinn aðeins skorað 7,6 stig að meðaltali í leik. „Ég held að þetta sé árangur æfinga minna. Ég vil líka þakka þjálfaranum fyrir að hafa leyft mér að spila mikið í leiknum og öllum liðsfélögunum fyrir að hjálpa mér."

Einn liðsfélaga Akkari er Bandaríkjamaðurinn Austin Johnson. „Hann var að skjóta vel og hélt því bara áfram. Við gerðum okkur grein fyrir því að hann væri sjóðheitur og komum boltanum á hann. Ég óska honum til hamingju - hann á þetta skilið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×