Körfubolti

Sundsvall Dragons úr leik í Svíþjóð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hlynur Bæringsson í leik með Sundsvall.
Hlynur Bæringsson í leik með Sundsvall. Mynd/Valli
Svíþjóðarmeistararnir og Íslendingaliðið Sundsvall Dragons er úr leik í úrslitakeppni sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta eftir tap í oddaleik rimmu sinnar gegn LF Basket í fjórðungsúrslitum, 88-79.

Þetta eru vitanlega mikil vonbrigði fyrir drekana sem lentu 2-1 undir í einvíginu. Þeir náðu svo að knýja fram oddaleik með naumum sigri á útivelli í síðustu viku en urðu svo að játa sig sigraða á heimavelli í kvöld.

Liðin skiptust á að vera í forystu í fyrri hálfleik en staðan að honum loknum var 39-38, LF Basket í vil. Gestirnir náðu svo forystunni snemma í þriðja leikhluta og létu hana aldrei af hendi, þó svo að Sundsvall hafi aldrei verið langt undan.

Jakob Sigurðarson var stigahæstur Íslendinganna í leiknum með fimmtán stig en hann tók þar að auki þrjú fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Hlynur Bæringsson skoraði sex stig og var með tíu fráköst.

Pavel Ermolinskij skoraði fimm stig, tók sex fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Hann er nýbyrjaður að spila á ný eftir meiðsli.

Einn annar oddaleikur fór fram í fjórðungsúrslitunum í kvöld. Borås hafði betur gegn Uppsala, 90-85, og komst þar með áfram í undanúrslitin.

Norrköping og Södertälje voru einnig komin áfram í undanúrslitin en með tapi Sundsvall í kvöld eru öll Íslendingaliðin í Svíþjóð úr leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×