Körfubolti

NBA: Lakers hafði betur gegn Oklahoma í tvíframlengdum leik

Kobe Bryant lék frábærlega á lokakaflanum gegn Oklahoma í gær.
Kobe Bryant lék frábærlega á lokakaflanum gegn Oklahoma í gær. AP
Það var mikið um að vera í NBA deildinni í körfubolta í gær en það líður að lokum deildarkeppninnar. Kobe Bryant og félagar hans í LA Lakers unnu upp 18 stiga forskot Oklahoma í 114-106 sigri Lakers í tvíframlengdum leik. Bryant skoraði alls 26 stig í leiknum en liðsfélagi hans Metta World Peace var vísað af leikvelli fyrir ljótt brot gegn James Harden í öðrum leikhluta.

Paul Gasol skoraði 20 stig, tók 14 fráköst og gaf 9 stoðsendingar fyrir LA Lakers. Kevin Durant og Russell Westbrook voru langt frá sínu besta í liði Oklahoma. Þeir hittu ekki úr 42 af samtals 56 skotum sínum í leiknum.

LA Clippers þokaði sér upp í þriðja sætið í vesturdeildinni með 107-98 sigri gegn New Orleans á heimavelli. Chris Paul skoraði 33 stig og gaf 13 stoðsendingar í liði Clippers. Þetta var 40. Sigurleikur Clippers á tímabilinu en liðið hefur ekki leikið betur frá tímabilinu 2006-2007.

Carmelo Anthony skoraði 39 stig fyrir New York í naumum sigri gegn Atlanta, 113-112. Anthony skoraði síðustu stig leiksins 10 sekúndum fyrir leikslok.

Charlotte tapaði 20. leiknum í röð og er á góðri leið með að fá þann titil að vera lélegasta lið allra tíma í NBA deildinni. Ef liðið, sem er í eigu Michael Jordan, tapar síðustu þremur leikjum sínum í deildinni verður liðið með lélegasta vinningshlutfall allra tíma í NBA deildinni. Charlotte hefur aðeins unnið 7 leiki en tapað 56.

LeBron James skoraði 32 stig og tók 8 fráköst í 97-88 sigri Miami Heat gegn Houston. Þar með er ljóst að Houston á ekki möguleika á að komast í úrslitakeppnina.

LA Lakers – Oklahoma 114-106

LA Clippers – New Orleans 107-98

Atlanta – New York 112-112

Charlotte – Sacramento 88-114

Miami – Houston 97-88

Detroit – Toronto 76-73

Minnesota - Golden State 88-93

San Antonio – Cleveland 114-98

Denver – Orlando 101-74




Fleiri fréttir

Sjá meira


×