Viðskipti erlent

Brent olían rýkur upp eftir verkbannsboðun í Noregi

Tunnan af Brent olíunni hefur hækkað um tæp 2% í morgun og er komin í 101,5 dollara eftir að Landssamtök olíuframleiðenda (OLF) í Noregi boðuðu allsherjar verkbann á öllum olíuborpöllum landsins frá og með næsta mánudegi.

Verkföll hafa truflað olíuframleiðslu Norðmanna að undanförnu og segir talsmaður OLF í samtali við Verdens Gang að samtökin hafi ekki séð neina leið nema verkbann í stöðunni. Kröfur þeirra verkalýðsfélaga sem eru í verkfalli séu þess eðlis að ómögulegt sé fyrir OLF að mæta þeim.

Verkfallið hefur nú staðið í 12 daga og það hefur kostað meðlimi OLF um 2,3 milljarða norskra kr. eða um 50 milljarða kr. hingað til. Með verkbanninu verða 6.500 starfsmenn í viðbót við þá sem eru í verkfalli útilokaðir frá vinnu sinni.

Fyrir Statoil þýðir verkbannið að framleiðsla á 1,2 milljónum tunna á dag fellur niður og talið er að kostnaður Statoil vegna þess muni nema 520 milljónum norskra kr. daglega eða um 11 milljörðum kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×