Viðskipti erlent

Kreppan lækkar fæðingartíðini í 25 af 30 Vesturlöndum

Efnahagskreppan í heiminum hefur haft þau áhrif að fæðingartíðni hefur lækkað í 25 af 30 vestrænum löndum þar á meðal Íslandi.

Á Íslandi hefur tíðnin þó lækkað hvað minnst og nær staðið í stað á síðustu tveimur árum. Raunar jókst hún nokkuð á fyrsta árinu eftir hrunið, þ.e. árið 2009 en þá fæddust rúmlega 5.000 börn á Íslandi sem er mesti fjöldi fæðinga á einu ári í sögu landsins.

Í sumum löndum eins og Lettlandi hefur fæðingartíðnin hinsvegar hrunið, en þar fór hún úr 1,44 börnum á konu árið 2008 og niður í 1,14 börn á síðasta ári. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Institute of Demography í Vín.

Þau lönd sem orðið hafa hvað harðast úti þegar kemur að lækkun fæðingartíðni eru Spánn, Grikkland, Eistland. Danmörk og Ungverjaland auk Lettlands. Fram kemur að sama þróun átti sér stað í heimskreppunni miklu í kringum árið 1930.

Ástæðan fyrir því að fæðingum fækkar í vestrænum ríkjum er efnahagsástandið og þá einkum óöryggið sem fylgir auknu atvinnuleysi. Þetta hefur þau áhrif að fólk giftir sig seinna og bíður með að eignast börn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×