Körfubolti

Logi Gunnarsson þarf að taka á sig launalækkun vegna undankeppni EM

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Körfuknattleiksmaðurinn Logi Gunnarsson segir í samtali við Karfan.is að hann þurfi að taka á sig launalækkun hjá franska liðinu Angers vegna leikjanna með íslenska landsliðinu í undankeppni Evrópumótsins í ágúst og september.

Logi segir forráðamenn Angers hafa viljað fá sig út í byrjun ágúst. Logi hafi þá tjáð þeim að hann kæmist ekki fyrr en um miðjan september vegna íslenska landsliðsins.

„Þá sögðust þeir ekki byrja að greiða laun fyrr en ég kæmi út. Umboðsmaðurinn minn vann í þessu og náði ágætis lendingu en vissulega þarf ég að sætta mig við launatap. Og þetta er ekki í fyrsta skipti sem svona lagað hefur komið fyrir á mínum ferli því miður," sagði Logi í samtali við Karfan.is í dag.

Hörður Axel Vilhjálmsson dró sig á dögunum út úr íslenska landsliðinu. Ástæðan var sú að forráðamenn þýska félags hans lögðu hart að honum að mæta á réttum tíma til æfinga á undirbúningstímabilinu.

„En þrátt fyrir þetta þá skil ég Hörð algerlega 100 prósent varðandi hans ákvörðun því það er fátt verra en að lenda úti í kuldanum hjá þjálfaranum og þurfa að verma tréverkið lungan úr vetri," segir Logi og telur að koma þurfi í veg fyrir að þjálfarar og stjórnarmenn geti sett pressu á leikmenn í tengslum við landsliðsverkefni sín.

„Því það er fátt sem fyllir mann meira stolti en að spila fyrir land og þjóð," sagði Logi við Karfan.is.


Tengdar fréttir

Formaður KKÍ: Þurfum að endurskoða vinnubrögð okkar

Hörður Axel Vilhjálmsson, landsliðsmaður Íslands í körfubolta, hefur dregið sig úr æfingahópi íslenska landsliðsins sem tekur þátt í undankeppni Evrópumóts karlalandsliða í ágúst og september. Hörður heldur þess í stað til móts við félag sitt Mitteldeutscher BC í efstu deild þýska körfuboltans og æfir með liðinu á undirbúningstímabilinu.

Hörður Axel dregur sig úr íslenska landsliðinu

Körfuknattleikskappinn Hörður Axel Vilhjálmsson hefur dregið sig úr íslenska landsliðshópnum. Þetta staðfesti Hannes S. Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands í samtali við Vísi í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×