Viðskipti erlent

Eignir í skattaskjólum mynda „risastórt svarthol“

BBI skrifar
Efnaðir einstaklingar og fjölskyldur þeirra geyma allt að 32 þúsund milljarða bandaríkjadala (næstum fjóra milljón milljarða króna) í skattaskjólum. Fyrir vikið tapast skattagreiðslur upp á 280 milljarða dala (næstum 35 þúsund milljarða króna).

Þetta kemur fram í rannsókn sem birtist í gær og gerð var fyrir þrýstihópinn Tax Justice Network. Upphæðirnar sem um ræðir jafnast á við verga landsframleiðslu Bandaríkjanna og Japans samanlagða. James Henry, áður aðalhagfræðingur ráðgjafafyrirtækisins McKinsey & Co., sagðist í áfalli yfir upphæðunum.

Aðstandendur rannsóknarinnar segja eitt helsta umhugsunarefnið vera að einhverjir stærstu banka heimsins, svo sem HSBC og Bank of America, aðstoða ofurríka viðskipta vini sína við að skjóta eignum undan sköttum og koma þeim fyrir í skattaskjólum. „Stundum eru þetta hreinlega ólögleg viðskipti," bættu þeir við.

Auður einstaklinga sem komið er fyrir í skattaskjólum er „risastórt svarthol í efnahag heimsins," sagði James Henry í yfirlýsingu.

Al Jazeera segir frá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×