Körfubolti

Litháen slapp í átta liða úrslitin | Ástralir lögðu Rússa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Það var hart barist í viðureign Túnisa og Litháa í dag.
Það var hart barist í viðureign Túnisa og Litháa í dag. Nordicphotos/Getty
Skotsýning Litháa fyrir utan þriggja stiga línuna sá til þess að liðið landaði sigri gegn Túnis í dag og sæti í átta liða úrslit körfuknattleikskeppni Ólympíuleikanna.

Um hreinan úrslitaleik þjóðanna um sæti í átta liða úrslitum var að ræða en fyrirkomulag körfuknattleikskeppninnar er það sama og í handboltanum þar sem leikið er í tveimur sex liða riðlum.

Afríkumeistarar Túnis höfðu frumkvæðið í leiknum og útlitið gott fram í þriðja fjórðung. Frábær sprettur Litháa fyrir utan þriggja stiga línuna sá til þess að munurinn minnkaði og sá að lokum fyrir þrettán stiga sigri 76-63.

Litháar stóðu vel í Bandaríkjunum og gott betur í síðustu viðureign sinni. Því kom á óvart að þeir skyldu lenda í vandræðum með Túnisa. Síðasti æfingaleikur Litháa fyrir leikana var gegn Íslendingum þar sem heimamenn höfðu 50 stiga sigur, 101-51.

Lokaniðurröðun þjóðanna í riðlinum er enn óráðin. Frakkar eiga þessa stundina í fullu tré við Nígeríu og í kvöld mætast Bandaríkin og Argentína í lokaleik riðilsins.

Í B-riðli unnu Ástralir óvæntan sigur á Rússum og tryggðu sér annað sæti riðilsins. Tapið skipti Rússa engu máli því þeir höfðu þegar tryggt sér efsta sæti riðilsins.

Brasilía og Spánn mætast í kvöld í úrslitaleik um hvort liðið hafnar í þriðja sæti riðilsins. Bæði lið eru þó örugg áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×