Viðskipti erlent

Raftæki öðlast framhaldslíf hjá Grænni Framtíð

Jóhanna Margrét Gísladóttir. skrifar
Gamlir farsímar og tölvur fá framhaldslíf hjá fyrirtækinu Græn Framtíð sem tekur við þeim og selur til viðgerðarfyrirtækja í Evrópu. Stofnandinn segir öryggisvörð næstum því hafa hringt í lögregluna þegar hann sá tugi fartölva í stöflum í stofunni.

Fyrirtækið Græn Framtíð var stofnað árið 2009 og byggir á því að hægt sé að endurnýta gömul tæki svo sem síma, myndavélar og tölvur sem áður var hent beint í ruslið.

„Það eru annars vegar símar sem hægt er að gera við, símar sem ekki er hægt að gera við og eru notaðir til að gera við aðra síma og síðan eru þeir seldir hvort sem það er til vestur-Evrópu eða Afríku eða Asíu," segir Bjartmar Alexandersson, framkvæmdastjóri Grænnar Framtíðar.

Fyrirtækið safnar til sín tækjum til að senda út í endurnýtingu til dæmis frá símafyrirtækjum og tryggingafélögum en Bjartmar segir að oft sé hægt að fá góð verð fyrir tæki sem hætt er að framleiða varahluti fyrir.

„Frá klassísku Nokia 5110 frá 15 krónum og iPhone alveg upp í helmingsvirði. Þannig það fer eftir ástandinu á tækinu en það er margt og mikið sem að fæst fyrir þetta."

Samtals hefur fyrirtækið tekið við og endurnýtt yfir tuttugu þúsund tæki en það byrjaði upphaflega með fullt af tölvum og tækjum í stofunni heima segir Bjartmar.

„Og eitt kvöldið pípti öryggiskerfið. Þegar öryggisvörðurinn kom hinn hélt hann að það væri þýfi, og ætlaði að tilkynna lögreglunni það."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×