Viðskipti erlent

ESB vill stofna neyðarsjóð fyrir fátæka í Evrópu

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vill koma á fót neyðarsjóði fyrir það fólk sem hvorki á til hnífs né skeiðar í Evrópu vegna efnahagskreppunnar.

Stjórnin vill að þessi neyðarsjóður nái eingöngu til fátækra ríkisborgara í löndum Evrópusambandsins. Hún hefur lagt til að stærð sjóðsins nemi 2,5 milljörðum evra eða sem svarar til rúmlega 400 milljarða króna. Þetta fé eigi að leggja sjóðnum til á árabilinu frá 2014 fram til 2020.

Rauði krossinn styður þessa tillögu framkvæmdastjórnarinnar. Anders Ladekarl aðalritari Rauðakrossins segir í samtali við börsen að fátækt sé sívaxandi vandamál í stórum hluta Evrópu en þó einkum í suður- og austurhluta álfunnar.

Sjóðnum er ætlað að taka við því hlutverki innan Evrópusambandsins sem fjárlög til landbúnaðar höfðu áður. Í þeim var ákveðið hvert ár hve mikil matvælaaðstoð við ríkisborgara innan Evrópusambandsins ætti að vera.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×