Handbolti

Patrekur tapaði í Rússlandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Patrekur Jóhannesson er einnig þjálfari Vals í N1-deild karla.
Patrekur Jóhannesson er einnig þjálfari Vals í N1-deild karla. Mynd/Vilhelm
Landslið Austurríkis er með tvö stig að loknum tveimur leikjum í undankeppni EM 2014. Patrekur Jóhannesson er þjálfari austurríska landsliðsins.

Austurríki byrjaði með frábærum ellefu marka sigri á Bosníu á heimavelli, 35-24, í síðustu viku en fór svo í langt og erfitt ferðalag til Perm í Rússlandi.

Þar unnu heimamenn nokkuð öruggan sigur, 38-31, eftir að hafa verið með sjö marka forystu í hálfleik, 19-12. Serbía vann á sama tíma sigur á Bosníu og er með fullt hús stiga á toppi riðilsins.

Austurríki mætir Serbum heima og ytra í mars næstkomandi en tvö lið komast áfram úr hverju liði. Austurríki og Rússland eru nú með tvö stig hvort.

Meðal annarra úrsita í undankeppni EM 2014 um helgina má nefna að Þýskaland komst á blað með naumum sigri á Ísrael á útivelli, 30-27. Þjóðverjar töpuðu óvænt fyrir Svartfellingum á heimavelli í fyrsta leiki 2. riðils.

Þá vann Portúgal frábæran heimasigur á Makedóníu í 1. riðli, 32-25, og eru bæði lið með tvö stig eftir fyrstu tvær umferðirnar. Spánn er með fullt hús stiga á toppnum og ætti að eiga greiða leið inn í úrslitakeppnina.

Lítil spenna virðist vera í 3., 4., og 5. riðli en þar hafa tvö lið í hverjum riðli tekið afgerandi forystu með því að vinna báða fyrstu leiki sína. Þetta eru Noregur og Frakkland (3. riðill), Ungverjaland og Króatía (4. riðill) og Pólland og Svíþjóð (5. riðill). Önnur lið í þessum riðlum eru stigalaus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×