Handbolti

Karabatic hefur hug á að spila með landsliði Svartfjallalands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Karabatic hefur farið fyrir sigursælu liði Frakka undanfarin ár. Hann er 28 ára gamall.
Karabatic hefur farið fyrir sigursælu liði Frakka undanfarin ár. Hann er 28 ára gamall. Nordicphotos/AFP
Nikola Karabatic, einn besti handboltamaður heims, hefur hug á því að spila með landsliði Svartfjallalands. Þetta kom fram í þarlendum fjölmiðlum í gær.

„Þvílíkar fréttir! Kannski þær bestu síðan Svartfjallaland fékk sjálfstæði sitt. Nikola Karabatic vill spila fyrir landslið okkar. Umboðsmaður handboltatöframannsins hefur þegar sett sig í samband við handknattleikssambandið," segir í miðlinum Dnevne Novine.

Karabatic hefur staðið í ströngu undanfarnar vikur en hann er ásamt fleiri leikmönnum Montpellier sakaður um hlut í veðmálahneyksli. Óvíst er um framtíð kappans en hann hefur þurft að fylgjast með liði sínu og landsliði af hliðarlínunni síðan málið komst í fréttirnar.

Karabatic yrði ekki fyrsti landsliðsmaðurinn til þess að spila fyrir tvö landslið. Má nefna Sergej Rutenka (Hvíta-Rússland og Slóvenía), Talant Duyshebaev (Spánn og Rússland) að ógleymdum Róbert Julian Duranona (Kúba og Ísland) sem dæmi um leikmenn sem staðið hafa vaktina fyrir landslið tveggja þjóða.

Reglurnar eru þó þannig að þrjú ár þurfa að líða á milli þess sem leikmenn spila með landsliðum tveggja ólíkra þjóða. Karabatic gæti því í fyrsta lagi spilað með Svartfellingum árið 2015.

Predrag Pavicevic, framkvæmdastjóri handknattleikssambands Svartfjallalands, hefur staðfest að áhugi sambandsins á kappanum sé mikill.

„Þessar fréttir hafa komið okkur skemmtilega á óvart. Auðvitað erum við upp með okkur að hann velti fyrir sér að spila með landsliði okkar. Það er engu að síður of snemmt að fullyrða nokkuð í þessum efnum," sagði Pavicevic.

Karabatic er fæddur í Nis í suður Serbíu. Móðir hans er serbnesk en faðir hans króatískur. Amma kappans er hins vegar frá Svartfjallalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×