Handbolti

Þrír sigrar í röð hjá strákunum hans Dags í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans í Füchse Berlin fögnuðu sínum þriðja sigri í röð í Meistaradeildinni í kvöld þegar liðið vann 29-27 heimasigur á RK Zagreb. Füchse Berlin hefur náð í átta stig af tíu mögulegum í fyrstu fimm umferðunum og er áfram í 2. sæti riðilsins.

Iker Romero lék bara seinni hálfleikinn og skoraði þá 8 af 17 mörkum liðsins. Dagur sýndi líka mikla yfirvegun í mikilvægu leikhléi þegar hans menn voru undir í lok leiksins en Refirnir skoruðu þrjú síðustu mörk leiksins.

Füchse Berlin byrjaði leikinn vel, komst í 5-1 og var 11-6 yfir eftir 20 mínútna leik. Það gekk hinsvegar allt á afturfótunum á síðustu tíu mínútum hálfleiksins.

RK Zagreb skoraði sjö mörk í röð og breytti stöðunni úr 11-6 í 11-13. Füchse Berlin skoraði lokamark hálfleiksins og Króatarnir voru því 13-12 yfir í hálfleik.

RK Zagreb náði tveggja marka forskot í upphafi seinni hálfleiks, 15-13, en síðan var jafnt á flestum tölum þar sem liðin skiptust á því að eiga góða kafla og taka forystuna.

Dagur tók leikhlé í stöðunni 26-27 fyrir Króatana og hans menn svöruðu með því að vinna síðustu fjórar mínúturnar 3-0 og tryggja sér sigur í leiknum. Spánverjinn Iker Romero fór á kostum á lokasprettinum og Silvio Heinevetter varð vel allan seinni hálfleikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×