Handbolti

Alexander ekki með á HM á Spáni

Hörður Magnússon skrifar
Alexander Petersson.
Alexander Petersson. Mynd/DIENER
Alger óvissa ríkir um þátttöku Alexanders Petersson með Íslenska handboltalandsliðinu á heimsmeistaramótinu á Spáni í janúar en þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

Alexander Petersson er leikmaður Rhein Neckar Löwen og spilar undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar fyrrverandi landsliðsþjálfara. Hann tilkynnti HSÍ fyrir nokkrum dögum að hann þyrfti á hvíld að halda vegna þráðlátra axlarmeiðsla. Alexander vill ekki fara í aðgerð heldur hvíla öxlina en hann hefur ekkert getað æft upp á síðkastið.

Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari staðfesti þetta við fréttastofu Stöðvar tvö í dag. Allt er nú reynt til að fá Alexander til að skipta um skoðun og ekki er útilokað að það takist.

Vart þarf að taka það fram hve mikið áfall þetta er fyrir landsliðið ef Alexander verður ekki með á heimsmeistaramótinu því eins og kunnugt er þá verður Arnór Atlason ekki með og Ólafur Stefánsson lagði landsliðsskóna á hilluna í haust. Þá er Rúnar Kárason meiddur. það eru því góð ráð dýr fyrir Aron kristjánsson ef ekki tekst að fá Alexander á flot.

Eitt ráð gæti verið í stöðunni að fá Ólaf Stefánsson til að endurskoða ákvörðun sína um að hætta með landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×