Viðskipti erlent

Stórmarkaðir og hótel í Svíþjóð banna sölu á risarækjum

Fjöldi stórmarkaða og hótela í Svíþjóð hafa bannað sölu á risarækjum sem koma úr eldiskvíum í Asíulöndum.

Ástæðan fyrir því að þessar risarækjur eru bannaðar eru að framleiðsla þeirra skaðar umhverfið sem og ótti við bakteríur í þeim. Risarækjurnar koma að mestu leyti frá Bangladess, Taílandi og Víetnam.

Í frétt um málið í Berlingske Tidende segir að bannað sé að selja þessar rækjur í 700 stórverslunum á vegum Coop sem og 180 verslunum hjá Axfood verslunarkeðjunni. Þá hafa 160 hótel í Scandic hótelkeðjunni í Svíþjóð bannað sölu á þessum rækjum. Scandic hótelin fengu umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs í fyrra.

Talsmaður Scandic hótelanna segir að risarækjur hafi verið teknar af öllum matseðlum þeirra vegna vandamála með tilbúin efni og sýklalyf í rækjunum.

Í sumar stöðvaði Matvælaeftirlit Norðurlandanna sendingu af risarækjum frá Víetnam. Prófanir höfðu sýnt að í rækjunum var að finna sýklalyf sem getur verið hættulegt fólki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×