Körfubolti

Flott að byrja árið með því að vinna bikar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir, hér í búningi Good Angels Kosice.
Helena Sverrisdóttir, hér í búningi Good Angels Kosice.
Helena Sverrisdóttir varð slóvakískur bikarmeistari með Good Angels Kosice um helgina en þetta er fyrsti titillinn sem hún vinnur sem atvinnumaður. Good Angels Kosice vann öruggan 79-36 sigur á ZBK Whirlpool Poprad í úrslitaleiknum en bikarkeppnin var öll í einu lagi frá föstudegi fram á sunnudag.

„Úrslitaleikurinn var nú svona skyldusigur eins og allir leikirnir hafa verið en það er alltaf gaman að fá bikar. Það er samt svolítið skrýtin tilfinning að vinna fyrsta leikinn með 90 stigum, undanúrslitaleikinn með 60 stigum og svo tökum við úrslitaleikinn með 40 stigum," sagði Helena sem var næststigahæst í sínu liði með 10 stig. Good Angels Kosice hefur nú unnið alla sextán leiki sína í deild og bikar. Það reynir meira á liðið í Meistaradeildinni þar sem liðið á góða möguleika á því að komast í 16 liða úrslitin.

„Það er flott að byrja árið með því að vinna bikar. Það eru síðan fjórir mjög mikilvægir leikir fram undan á næstu fjórum vikum í Meistaradeildinni," segir Helena. Hún fékk lítið að spila í Meistaradeildinni í nóvember en vann sér inn mun fleiri spilamínútur í desember.

„Þetta var orðið svolítið erfitt þegar maður fékk lítið að spila. Vonandi held ég bara áfram eins og ég endaði í desember. Ég vissi að ég yrði að standa mig vel á æfingum í slóvakísku deildinni og þá myndi ég fá fleiri tækifæri í Meistaradeildinni. Ég reyndi bara að halda áfram að vera jákvæð og gera þessa hluti rétt og hægt og rólega fékk ég að spila aðeins meira," segir Helena.

„Það eru margir leikmenn að berjast um fimm stöður. Það er mikil samkeppni hjá okkur og hver og einn í liðinu vill sýna sig þegar hann kemur inn á völlinn," segir Helena.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×