Körfubolti

Keyrði í þrjá og hálfan tíma á leikinn

Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir, fyrirliði kvennalandsliðsins og leikmaður slóvakíska liðsins Good Angels Kosice, var meðal áhorfenda á körfuboltalandsleik Slóvaku og Íslands í Levice á laugardaginn. Hún ók í þrjá og hálfan tíma frá Kosice til að horfa á leikinn.

„Þetta var smá keyrsla en hvað gerir maður ekki til þess að sjá Íslendinga spila því það gerist ekki oft," sagði Helena. „Þetta var mjög skemmtilegt. Ég var reyndar smá stressuð í byrjun þegar ég sá að Pavel gat ekki spilað. Það var gaman að horfa á þá, þeir spiluðu geðveika vörn og þetta gekk ótrúlega vel," sagði Helena sem hrósaði Jón Arnóri fyrir frammistöðuna.

„Það gekk ekki nógu vel í byrjun og það þurfti einhver að taka af skarið. Jón tók það algjörlega að sér og það var unun að horfa á hann því hann var ekkert smá flottur í þessum leik. Mér fannst Haukur líka spila rosalega vel," sagði Helena sem minntist líka á framlag Ægis Þórs Steinarssonar. „Ægir var að stjórna þessum leik mjög vel og það er gaman að sjá svona ungan og reynslulítinn strák standa sig svona ótrúlega vel," sagði Helena.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×