Handbolti

Björgvin Páll til Bergischer HC

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Björgvin Páll Gústavsson mun í sumar ganga til liðs við þýska B-deildarfélagið Bergischer HC. Það kemur fram á vef félagsins í dag.

Fyrr í haust var greint frá því að Björgvin Páll myndi ekki framlengja samning sinn við Magdeburg og færi því frá liðinu næsta sumar.

Bergischer féll úr þýsku úrvalsdeildinni í vor en er nú í öðru sæti B-deildarinnar og stefnir að því að vinna sér aftur sæti í deild þeirra bestu.

„Strax í nóvember hófst mikil vinna við að fá Björgvin til liðs við okkur. Hann er okkar óskaleikamður," sagði Jörg Föste, framkvæmdarstjóri félagsins.

„Stuðningsmenn okkar geta hlakkað til að fá markvörð sem er í efsta gæðaflokki á alþjóðavísu," bætti hann við.

„Markmið mitt og draumur er að verða einn af fimm bestu markvörðum heims," sagði Björgvin Páll sjálfur. „Ég vinn að þeim markmiðum á hverjum einasta degi."

„Ég er handviss um að liðið geti komist aftur upp í úrvalsdeildina - annars hefði ég ekki samið við liðið. Þetta er lið sem hefur alla burði til að festa sig í sessi sem úrvalsdeildarlið á næstu árum. Ég vil taka þátt í þeirri vinnu."

Björgvin er nú staddur á Spáni þar sem hann spilar með Íslandi á HM í handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×