Viðskipti erlent

Andstaða í Noregi við olíuleit og vinnslu undan Jan Mayen

Loftslags- og mengunarráð Noregs er mótfallið því að Norðmenn hefji olíuleit við Jan Mayen þar sem eyjan er náttúruverndað svæði.

Eins og við greindum frá í fréttum okkar í gærmorgun mun norska Stórþingið greiða atkvæði um olíuleit og vinnslu á hafsvæðinu undan ströndum Jan Mayen og í suðaustanverðu Barentshafi fyrir páskana. Reiknað er með að frumvarp þess efnis muni verða samþykkt án teljandi andstöðu á þinginu.

Raunar hefur stjórn og stjórnarandstaða í Noregi fyrir löngu samið um þetta mál. Það er samið um að friða hafsvæðið undan Lófóten fyrir olíuleit og vinnslu en leyfa slíkt á fyrrgreindum hafsvæðum í staðinn.

Í frétt um málið á vefsíðunni offshore segir að hafsvæðið við Jan Mayen þar sem leifa á olíuleit sé um 100.000 ferkílómetrar að stærð eða álíka stórt og Ísland.

Á vefsíðunni er rætt við Ellen Hambro formann Loftslags- og mengunarvarnaráðsins sem segir að ekki sé verjandi að hefja olíuleit, hvað þá olíuvinnslu, við Jan Mayen. Slíkt muni óhjákvæmilega koma við kaunin á viðkvæmri náttúru eyjarinnar sem nýtur verndar samkvæmt norskum lögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×