Handbolti

Óskar Bjarni og Viborg-stelpurnar aftur á sigurbraut

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Bjarni Óskarsson
Óskar Bjarni Óskarsson Mynd/Daníel
Kvennalið Viborg átti ekki í miklum vandræðum með KIF Vejen í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag en stelpurnar hans Óskar Bjarna Óskarssonar unnu níu marka sigur í leiknum, 31-22. Arna Sif Pálsdóttir og félagar í Aalborg DH þurftu að sætta sig við naumt tap.

Viborg komst þar með aftur á sigurbraut eftir að hafa tapað í fyrsta sinn undir stjórn Óskars Bjarna á móti Team Esbjerg í leiknum á undan.

Rikke Skov, Pernille Holst Larsen og Louise Lyksborg skoruðu allar fjögur mörk fyrir Viborg-liðið en Viborg var komið í 17-10 forystu í hálfleik.

Viborg vann fyrstu þrjá leiki sína undir stjórn Óskars Bjarna en þetta óvænta tap á móti Team Esbjerg þýðir að liðið er tveimur stigum á eftir toppliði FC Midtjylland. Toppliðin mætast í næstu viku á heimavelli Viborg.

Íslenska landsliðskonan Arna Sif Pálsdóttir átti möguleika á því að tryggja Aalborg DH jafntefli á móti Team Esbjerg en skot hennar fór framhjá markinu og Team Esbjerg fagnaði dramatískum 29-28 sigri. Arna Sif skoraði eitt mark í leiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×