Körfubolti

Bikarúrslitaleikurinn spilaður í tómri höll

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er oft mikill hiti í mönnum á Balkanskaganum og því miður misstu stuðningsmenn Partizan og Rauðu Stjörnunnar frá Belgrad algjörlega stjórn á sér í serbneska bikarúrslitaleiknum í körfubolta sem fram fór í gær.

Partizan og Crvena Zvezda (Rauða Stjarnan) voru að spila til úrslita í gær en dómarar leiksins urðu að flauta hann af þegar stuðningsmenn liðanna fóru inn á völlinn í þriðja leikhluta, sprengdu reyksprengjur og slógust upp í stúku.

Það er hægt að sjá svipmyndir frá ringulreiðinni í höllinni hér fyrir ofan. Úrslitaleikurinn fór fram í Kragujevac sem er 140 kílómetra suður af Belgrad en þarna mættust tvö stærstu félögin frá Beldgrad.

Serbneska körfuboltasambandið hefur nú ákveðið að leikurinn haldi áfram í dag en að engir áhorfendur megi vera á pöllunum. Staðan var 43-43 þegar leikurinn var stöðvaður en þá voru fjórar mínútur eftir af þriðja leikhlutanum.

Partizan-liðið hefur unnið bikarinn fimm ár í röð og vann meðal annars 64–51 sigur á Crvena Zvezda í úrslitaleiknum í fyrra. Crvena Zvezda vann bikarinn síðast fyrir sjö árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×