Viðskipti erlent

Stjórnmálakreppan á Ítalíu virðist ekki vandamál fyrir fjárfesta

Fjárfestar virðast ekki hafa ýkja miklar áhyggjur af þeirri stjórnarkreppu sem ríkir á Ítalíu. Þetta kemur fram í niðurstöðum útboðs á ítölskum ríkisskuldabréfum.

Í boði voru ríkisskuldabréf til fimm og tíu ára og reyndist töluverð umfram eftirspurn eftir þeim. Vaxtakrafan á tíu ára bréfunum var um 4,8% og hækkaði úr 4,2% í samskonar útboði í síðasta mánuði. Hinsvegar seldust öll bréfin að nafnvirði 6,5 milljarða evra eða vel yfir 1.000 milljarða króna.

Bréfin til fimm ára voru seld á 3,6% vöxtum en í samskonar útboði í janúar voru vextirnir 2,9%.

Í frétt um málið á vefsíðu BBC segir að vaxtakjör Ítalíu í þessum útboðum hafi því verið langtum betri en þjóðinni bauðst í nóvember 2011 þegar vextirnir fóru í 7% á tíu ára bréfunum.

Þar að auki var um 65% umfram eftirspurn eftir bréfunum í báðum fyrrgreindum skuldabréfaflokkum. BBC hefur eftir Michael Leister greinanda hjá Commerzbank í London að útboðið hafi verið öflugt fyrir Ítali hvernig sem á það sé litið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×