Handbolti

Guif tapaði og datt niður í þriðja sætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Heimisson
Heimir Heimisson Mynd/Stefán
Lærisveinum Kristjáns Andréssonar í Guif tókst ekki að stöðva sigurgöngu Sävehof í toppbaráttuslag í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta. Ólafur Guðmundsson og félagar í Kristianstad voru eina Íslendingaliðið sem fögnuðu sigri í sænsku deildinni í kvöld.

Sävehof vann fjögurra marka sigur á Guif, 32-28, en þetta var sjötti sigur Sävehof-liðsins í röð og skilaði liðinu upp fyrir Guif og í 2. sætið. Sävehof var 17-13 yfir í hálfleik og náði mest sjö marka forystu í seinni hálfleik. Heimir Heimsson skoraði fimm mörk fyrir Guif.

Ólafur Guðmundsson og félagar í Kristianstad fögnuðu langþráðum sigri þegar liðið vann fimm marka heimasigur á HK Malmö, 32-27. Kristianstad var búið að spila þrjá leiki í röð án þess að vinna. Kristianstad var 17-15 yfir í hálfleik. Ólafur skoraði tvö mörk í leiknum en bæði mörkin hans komu í fyrri hálfleiknum.

Elvar Friðriksson skoraði fjögur mörk þegar Hammarby tapaði með fimm mörkum á heimavelli á móti Redbergslid, 24-29. Redbergslid var 13-8 yfir í hálfleik. Elvar var þriðji markahæsti leikmaður Hammarby í leiknum en liðið var búið að vinna tvo síðustu deildarleiki sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×