Handbolti

Óvænt tap Flensburg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Ólafur Gústafsson og félagar hans í Flensburg gáfu eftir í baráttunni um þriðja sæti þýsku úrvalsdeildarinnar en liðið tapaði óvænt fyrir Lemgo í kvöld, 27-22.

Carsten Lichtlein, markvörður Lemgo, átti stórleik en Ólafur náði að skora eitt mark hjá honum í kvöld.

Staðan í hálfleik var 14-7, Lemgo í vil, og sigurinn í raun aldrei í hættu.

Toppliðin tvö, Kiel og Rhein-Neckar Löwen, unnu bæði leiki sína í kvöld. Kiel er með 45 stig á toppnum en Löwen með 43, fjórum stigum meira en Flensburg sem heldur enn þriðja sætinu. Flensburg á reyndar leik til góða.

Kiel vann botnlið Essen, 33-23. Aron Pálmarsson skoarði fjögur mörk fyrir Kiel en Guðjón Valur Sigurðsson ekkert.

Rhein-Neckar Löwen hafði betur gegn Hannover-Burgdorf, 39-28. Alexander Petersson skoraði fimm mörk fyrir Löwen og Stefán Rafn Sigurmannsson þrjú.

Füchse Berlin er í fjórða sætinu með 39 stig, jafn mörg og Flensburg. Liðið vann Melsungen á útivelli í kvöld, 30-24. Dagur Sigurðsson er þjálfari Berlínarliðsins.

Magdeburg, lið Björgvins Páls Gústavssonar markvarðar, vann Wetzlar naumlega á útivelli, 28-27. Fannar Friðgeirsson skoraði ekki fyrir Wetzlar í kvöld og Kári Kristján Kristjánsson spilaði ekki með liðinu vegna meiðsla.

Wetzlar, sem byrjaði tímabilið vel í haust, er í tíunda sæti deildairnnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×