Körfubolti

Helena og félagar komust ekki í úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Mynd/Heimasíða Good Angels Kosice
Helena Sverrisdóttir og félagar í slóvakíska liðinu Good Angels Kosice tókst ekki að tryggja sér sæti í úrslitaleik Euroleague en liðið tapaði með tólf stiga mun á móti tyrkneska liðinu Fenerbahce, 56-68, í undanúrslitleiknum í dag.

Good Angels Kosice er þegar búið að ná sínum besta árangri frá upphafi með því að komast í undanúrslitin og á enn möguleika á verðlaunum því liðið mætir franska liðinu Bourges Basket í bronsleiknum á sunnudaginn.

Helena var með 5 stig, 3 fráköst og 1 stolinn bolta á þeim 13 mínútum sem hún spilaði en Good Angels Kosice vann með einu stigi þær mínútur sem íslenska landsliðskonan var inn á vellinum.

Good Angels Kosice var í góðum málum í hálfleik en liðið var þá sjö stigum yfir, 35-28. Fenerbahce vann þriðja leikhlutann hinsvegar 23-10 og tók frumkvæðið sem liðið hélt út leikinn. Sigurinn var aldrei í mikilli hættu í fjórða leikhlutanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×