Handbolti

Fyrirliði Wetzlar orðlaus

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Bongarts
Michael Müller, fyrirliði Wetzlar, lýsir mikilli furðu yfir þeirri ákvörðun Kára Kristjáns Kristjánssonar að spila með íslenska landsliðinu gegn Slóveníu í fyrradag.

Kári Kristján var í gær rekinn frá þýska úrvalsdeildarfélaginu Wetzlar. Ástæðan er sögð vera sú að Kári hafi verið á sjúkralista og því ekki verið heimilt að spila með liðinu.

Hann hafi aðeins fengið heimild til að fara til Íslands til að fá meðhöndlun hjá læknum landsliðsins. Forráðamenn Wetzlar sögðu athæfi Kára ekki aðeins samningsbrot heldur trúnaðarbrot.

Müller tjáði sig um málið í samtali við staðarblaðið Giessener Allgemeine.

„Ég er orðlaus. Við eigum erfitt með að trúa að Kári hafi ákveðið að spila þennan leik og afstaða félagsins er skiljanleg. Ég hef ekki hugmynd um hvað hann var að hugsa," sagði Müller. „Hann fór á bak við félagið."

Kári fór í aðgerð í febrúar síðastliðnum til að láta fjarlægja góðkynja æxli úr baki hans.

„Hann á tvö börn. Það hefði getað haft alls kyns afleiðingar í för með sér fyrir hann að spila þennan leik," bætti Müller við.


Tengdar fréttir

Magnaður sigur í Maribor

Íslenska landsliðið í handknattleik vann magnaðan sigur, 28-29, á Slóvenum í Maribor í kvöld. Íslenska liðið átti magnaða endurkomu í síðari hálfleik og vann frækinn sigur.

Rekinn frá Wetzlar

Þýska úrvalsdeildarfélagið Wetzlar rak landsliðsmanninn Kára Kristján Kristjánsson frá félaginu í gær. Félagið segir Kára hafa gerst sekan um brot á samningi við félagið og þess vegna hafi félagið ákveðið að segja upp samningnum.

Verður Kári rekinn frá Wetzlar?

Þýska dagblaðið Giessener Allgemeine greinir frá því í dag að forráðamenn Wetzlar eru afar óánægðir með að Kári Kristján Kristjánsson hafi spilað með íslenska landsliðinu í gær.

Datt næstum því úr sófanum þegar ég sá Kára spila

Wetzlar hefur ákveðið að segja upp samningi sínum við íslenska landsliðslínumanninn Kára Kristjánsson eftir að Kári lék með íslenska landsliðinu í Slóveníu í gær. Félagið vissi ekki betur en að Kári væri í veikindaleyfi heima á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu HSG Wetzlar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×