Handbolti

Arnór spilaði með Flensburg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Arnór Atlason spilaði sinn fyrsta leik með Flensburg í kvöld síðan hann sleit hásin fyrr á þessu tímabili.

Arnór hefur náð frábærum bata eftir erfið meiðsli en í fyrstu var jafnvel talið að hann myndi ekki spila aftur með liðinu á tímabilinu.

Hann náði ekki að skora í dag þegar að Flensburg hafði betur gegn Hannover-Burgdorf, 32-26. Ólafur Gústafsson, sem var fenginn til liðsins til að fylla í skarð Arnórs, skoraði fjögur mörk.

Grosswallstadt og Magdeburg gerðu jafntefli, 25-25. Björgvin Páll Gústavsson spilaði síðustu mínuturnar með síðarnefnda liðinu.

Rúnar Kárason skoraði þrjú mörk fyrir Grosswallstadt en fyrirliðinn Sverre Jakobsson lék að venju í vörninni.

Füchse Berlin, lið Dags Sigurðssonar, vann Lemgo, 27-21.

Þá hafði Rhein-Neckar Löwen betur gegn Gummersbach, 27-22. Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir Löwen og Stefán Rafn Sigurmannsson þrjú. Guðmundur Guðmundsson er þjálfari liðsins.

Að síðustu vann topplið Kiel sigur á Lübbecke, 33-29. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði eitt mark fyrir Kiel en Aron Pálmarsson var ekki í hópnum í dag. Alfreð Gíslason er þjálfari Kiel.

Kiel er með 49 stig og þriggja stiga forystu á Löwen á toppi deildarinnar. Flensburg er í þriðja sæti með 44 stig og Füchswe Berlin í því fjórða með 41 stig.

Magdeburg er í sjöunda sæti með 31 stig en Grosswallstadt næstneðsta sæti með aðeins níu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×