Handbolti

Óskar Bjarni rekinn frá Viborg | Ég er drullufúll

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Danska úrvalsdeildarfélagið Viborg tilkynnti í dag að kvennalið félagsins hefði fengið nýjan þjálfara.

Óskar Bjarni Óskarsson tók við liðinu á miðju tímabili eftir að hafa hafið tímabilið sem þjálfari karlaliðsins. Viborg er í miðri úrslitakeppni í Danmörku og í öðru sæti síns riðils eftir fjóra leiki. Liðið hefur unnið tvo leiki en tapað tveimur.

„Þetta er nokkuð sérstakt,“ sagði Óskar Bjarni í viðtali við Vísi. „Ég var á leið með liðið í undanúrslit um helgina þegar ég var kallaður á fund og tilkynnt þetta. Ég vissi svo sem þegar ég tók við kvennaliðinu að þetta yrði erfitt starf en svona hefur þetta verið alla tíð.“

Óskar Bjarni segir að úrslitin hafi ekki verið góð að undanförnu og að tap liðsins gegn Team Tvis um helgina hafi gert útslagið. „Við höfum tapað of mörgum leikjum og alveg eðlilegt að kíkja á það. Ég var ekki ánægður og ekki þeir í stjórninni heldur.“

„En ég var einbeittur að því að fara í undanúrsltin, vinna þann leik, fara svo í úrslitin og vinna þar. Það var það sem ég ætlaði að gera og er ég drullufúll að fá ekki tækifæri til þess.“

Viborg er öruggt með sæti í undanúrslitum en stjórn félagsins hefur áhyggjur af því að liðið muni ekki komast í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

„Það skiptir félagið gríðarlegu máli, vegna kosturnarsamninga og annars slíks. Því var ákveðið eftir tapið gegn Tvis að koma með smá auka kraft inn í liðið og þetta er leiðin sem þeir vildu fara. Svona er bara boltinn.“

Christian Dalmose mun taka við Viborg og honum er ætlað það hlutverk að koma liðinu í gegnum undanúrslit úrslitakeppninnar og í Meistaradeild Evrópu fyrir næstu leiktíð.

Viborg tapaði fyrir Team Tvis á laugardaginn og Óskar Bjarni skilur ekki af hverju hann var þá ekki rekinn í gær.

„Eftir leikinn fór ég heim og hóf undirbúning fyrir næsta leik. Ég er búinn að eyða miklum tíma í að klippa myndbönd og annað slíkt. Þeir áttu bara að reka mig í gær. Þetta er nú meiri vitleysan,“ sagði Óskar Bjarni en hann átti eitt ár eftir af samningi sínum við félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×