Viðskipti erlent

Vínkjallari veitingahússins elBulli seldur á uppboði í Hong Kong

Vínkjallari hins heimsfræga veitingahúss elBulli á Spáni hefur verið seldur á uppboði í Hong Kong.

Vínkjallarinn var hluti af voruppboði Sotheby´s í Hong Kong fyrr í mánuðinum og fengust 1,8 milljónir dollara fyrir hann eða yfir 200 milljónir króna. Þetta var tugum milljóna króna yfir verðmatinu á vínkjallaranum fyrir uppboðið en mikið líf og fjör var á staðnum þegar flöskurnar voru boðnar upp að því er segir á vefsíðunni luxury insider.

Af dýrustu vínunum má nefna þrjár flöskur af 1990 árganginum af rauðvíninu Domaine de la Romanée-Conti en þær voru slegnar á yfir 72.000 dollara eða rúmlega 8 milljónir króna.

Veitingahúsið elBulli var með þrjár stjörnur í Michelin leiðarvísinum þegar því var lokað árið 2011 eftir stöðugan taprekstur árin á undan. elBulli var fimm sinnum kjörið veitingahús ársins í heiminum á síðasta áratug.

Til stendur að opna elBulli að nýju í ár en þá sem elBullistofnunina fyrir matargerðarlist. Raunar rann allur ágóðinn af fyrrgreindu uppboði til þeirra stofnunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×