Handbolti

Evrópumeistaratitill í afmælisgjöf

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leikmenn Löwen fagna í Nantes í dag.
Leikmenn Löwen fagna í Nantes í dag. Nordicphotos/Getty

Alexander Petersson, Stefán Rafn Sigurmannsson og félagar í Rhein-Neckar Löwen urðu í dag Evrópumeistarar í handknattleik eftir 26-24 sigur á Nantes í úrslitaleik EHF-bikarsins í Frakklandi.

Þýska liðið hafði undirtökin stærstan hluta leiksins og leiddi í hálfleik 16-12. Alexander skoraði tvö mörk fyrir Ljónin frá Mannheim og Stefán Rafn Sigurmannsson eitt. Uwe Gensheimer, sem er nýkominn aftur á ferðina eftir erfið meiðsli, átti stórleik fyrir Löwen og skoraði tíu mörk.

Meiðsli Gensheimer urðu einmitt til þess að Stefán Rafn var fenginn til Löwen þar sem hann hefur slegið í gegn. Stefán Rafn fagnaði 23 ára afmæli sínu í dag og fékk því bestu mögulegu afmælisgjöfina frá liðsfélögum sínum.

Gunnar Steinn Jónsson skoraði tvö mörk fyrir Nantes sem stóð fyrir sínu en þýska liðið reyndist of stór biti þegar uppi var staðið.

Þetta er fyrsti Evróputitill Rhein-Neckar Löwen en liðinu stýrir Guðmundur Þórður Guðmundsson.

„Við vissum að Nantes yrði erfiður andstæðingur enda vel studdir á heimavelli. Við spiluðum hins vegar vel og verðskulduðum sigurinn," sagði Uwe Gensheimer í leikslok.

Hann sagði stundina afar sæta en biðin eftir Evróputitli hjá Rhein-Neckar Löwen hefur verið löng og ströng.

Danska liðið Tvis Holstebro tryggði sér fyrr í dag bronsið með 28-27 á Göppingen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×