Handbolti

Fall blasir við Grosswallstadt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Útlitið er svart hjá Sverre og félögum.
Útlitið er svart hjá Sverre og félögum. Nordicphotos/Getty

Sverre Jakobsson og félagar í Grosswallstadt steinlágu 38-20 gegn Göppingen í 32. umferð þýsku 1. deilarinnar í handbolta í kvöld.

Eftir tapið er Grosswallstadt í fallsæti með 13 stig. Næsta lið fyrir ofan er Gummersbach með 16 stig. Þeir bláklæddu verða því að vinna þá tvo leiki sem eftir eru og jafnframt treysta á að Gummersbach skriki alvarlega fótur.

Sverre var rekinn útaf í tvær mínútur í tvígang í kvöld. Rúnar Kárason er meiddur á hendi og leikur ekki næstu vikurnar. Óhætt er að fullyrða að Grosswallstadt hafi saknað hans í leiknum í kvöld.

Rhein-Neckar Löwen vann öruggan 32-21 útisigur á TV 1893 Neuhausen í kvöld. Alexander Petersson skoraði þrjú mörk og Stefán Rafn Sigurmannsson tvö.

Ljónin hafa tryggt sér eitt þriggja efstu sætanna í deildinni og þar með sæti í meistaradeildinni á næstu leiktíð hvort. Liðið hefur tveggja stiga forskot á Flensburg í öðru sæti deildarinnar en Flensburg á leik til góða. Liðið í þriðja sæti þarf þó að fara í forkeppni meistaradeildar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×