Körfubolti

Jón Arnór og félagar unnu eftir þríframlengdan leik

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jón Arnór í leik með íslenska landsliðinu
Jón Arnór í leik með íslenska landsliðinu Mynd. / Anton

Zaragoza tryggði sér oddaleik í 8-liða úrslitum spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta þegar liðið bar sigur úr býtum, 122-120, gegn Valencia í ótrúlegum körfuboltaleik en framlengja þurfti í þrígang. Jón Arnór Stefánsson var flottur í liðið Zaragoza og gerði 14 stig.

Valencia hafði unnið fyrsta leik liðanna og því var að duga eða drepast fyrir Zaragoza í dag. Cai Zaragoza byrjaði leikinn betur og náði fljótlega frumkvæðinu í leiknum. Jón Arnór Stefánsson var í byrjunarliðinu hjá Zaragoza og lék mikið framanaf leiknum. Leikurinn var samt sem áður alltaf spennandi og þegar venjulegum leiktíma var lokið var staðan 90-90 og framlengja þurfti.

Í framlengingunni var útlitið ekki gott fyrir Jón Arnór og félaga í Zaragoza en þeir lentu strax í vandræðum til að byrja með, en liðið neitaði að gefast upp og náðu að jafna metin, 100-100 og því þurftu aftur að framlengja.

Það voru síðan heimamenn sem byrjuðu betur í annarri framlengingunni og náðu að komast yfir 107-104 þegar lítið var eftir en Valencia var ekkert á því að leggja árar í bát og jöfnuðu metin 109-109 og þurfti því að framlengja í þriðja sinn.

Zaragoza náði að lokum að vinna magnaðan sigur 122-120 að lokum eftir ótrúlegan maraþonleik en staðan er því 1-1 í einvíginu og því þarf hreinan úrslitaleik á milli liðana um það hver fer áfram í undanúrslitin.  Jón Arnór Stefánsson gerði 14 stig í leiknum og sýndi fína spretti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×