Handbolti

Tíu leikja bann og rúmar tvær milljónir í sekt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Maðurinn sem skallaði Ivan Nincevic fékk þyngstu refsingu sem aganefnd þýsku úrvalsdeildarinnar gat gefið honum.

Torsten Jansen, leikmaður Hamburg, fékk tíu leikja bann og var sektaður um 15 þúsund evrur, um 2,4 milljónir króna. Er það mesta sektarupphæð sem beitt hefur verið í þýska handboltanum.

Samkvæmt lögum deildarinnar rennur þó bannið út eftir tvo mánuði. Jansen verður því í banni í síðustu tveimur leikjum Hamburg í þýsku deildinni í vor en getur svo byrjað að spila með liði sínu á ný í haust.

Samkvæmt lögunum er ekki hægt að flytja bannið yfir á næsta tímabil.

Jansen má einnig spila með Hamburg í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í Köln um þarnæstu helgi.

„Þrátt fyrir alvarleika brotsins og að svo lítið sé eftir af tímabilinu getum við ekki breytt reglunum,“ sagði Andreas Thiel, lögmaður á vegum þýsku úrvalsdeildarinnar.

Nincevic, leikmaður Füchse Berlin, hlaut alvarlega áverka eftir að hafa verið skallaður af Jansen í andlitið á dögunum. Hann hlaut fimm sentímetra skurð í andlitið og heilahristing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×