Körfubolti

Coach K hættur við að hætta með bandaríska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mike Krzyzewski.
Mike Krzyzewski. Mynd/NordicPhotos/Getty

Mike Krzyzewski, betur þekktur sem Coach K, verður áfram þjálfari bandaríska landsliðsins í körfubolta en hann mun samkvæmt heimildum bandaríska fjölmiðla tilkynna þetta á blaðamannafundi í dag. Krzyzewski hefur þjálfað landsliðið frá árinu 2005 og komið því á ný í sérflokk í alþjóðaboltanum.

Mike Krzyzewski, sem er orðinn 66 ára gamall, var búinn að gefa það út að hann ætlaði að hætta með liðið eftir Ólympíuleikana í London á síðasta ári en nú ætlar hann að reyna við þriðja Ólympíugullið í röð í Ríó árið 2016.

Jerry Colangelo, yfirmaður landsliðsmála hjá bandaríska körfuboltasambandinu, gaf Krzyzewski góðan tíma til að hugsa um framtíðina og var ekki búinn að ráða nýjan þjálfara þrátt fyrir yfirlýsingu Mike Krzyzewski eftir leikana í London.

Mike Krzyzewski mun stýra bandaríska landsliðinu á HM á Spáni 2014 sem og á ÓL í Río 2016. Bandaríska landsliðið hefur unnið 62 af 63 leikjum undir hans stjórn undanfarin sjö ár.

Mike Krzyzewski er þjálfari körfuboltaliðs Duke-háskólans og hefur gert liðið fjórum sinnum að háskólameisturum síðan að hann tók við 1980, síðast árið 2010. Hann hefur unnið 957 leiki sem þjálfari í háskólaboltanum eða meira en nokkur annar þjálfari.

Stórmót bandaríska landsliðsins undir stjórn Mike Krzyzewski:

HM í Argentínu 1990 - brons

HM í Japan 2006 - brons

ÓL í Peking 2008 - gull

HM í Tyrklandi 2010 - gull

ÓL í London 2012 - gull




Fleiri fréttir

Sjá meira


×