Körfubolti

Jón Arnór og félagar töpuðu með átta stigum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/MYND/RAMÓN CORTÉS WWW.CAISTAS.NET

Jón Arnór Stefánsson og félagar í CAI Zaragoza biðu lægri hlut 84-76 gegn Real Madrid í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum spænska körfuboltans í kvöld.

Fyrri hálfleikur var afar jafn og spennandi og Jón Arnór var í stóru hlutverki. Hann skoraði sjö stig og var mjög sterkur í vörninni. Staðan í hálfleik var 42-40 heimamönnum í Madríd í vil.

Ekkert gekk í sóknarleiknum hjá gestunum í Zaragoza í þriðja leikhluta. Heimamenn gengu á lagið og náðu góðri forystu sem þeir létu aldrei af hendi. Nikola Mirotic var atkvæðamestur heimamanna með 18 stig og 11 fráköst.

Liðin mætast öðru sinni í Madríd á laugardaginn. Þrjá sigra þarf til þess að tryggja sér sæti í úrslitum.

Leikurinn var í textalýsingu hér á Vísi.

Leik lokið Real Madrid vinnur sigur í fyrsta leiknum 84-76. Leikurinn var jafn og spennandi fram í þriðja leikhluta þegar heimamenn tóku völdin.

4. leikhluti Tvær mínútur eftir. Munurinn er enn níu stig 80-71. Enn er Jón Arnór á bekknum. Skiljum að sjálfsögðu ekkert í þeirri ákvörðun þjálfarans að geyma okkar mann í bekknum þegar svo mikið er undir. Jón oftar en ekki bestur á lykilandartökum leiksins.

4. leikhluti Fjórar og hálf eftir. Staðan er 76-67 fyrir Real Madrid. Jón Arnór er áfram á bekknum. Enn er von.

4. leikhluti Tæpar þrjár mínútur liðanar af leikhlutanum. Heimamenn leiða 72-59. Jón Arnór hvílir.

3. leikhluta lokið Það er óhætt að segja að heimamenn hafi sett í fluggírinn. Jón Arnór kom aftur inn á undir lok leikhlutans. Hann reyndi þriggja stiga skot en það geigaði. Heimamenn svöruðu með þristi. Jón Arnór átti svo lokaskot leikhlutans, stökkskot innan teigs, en aftur klikkaði okkar maður. Staðan 66-53 fyrir lokaleikhlutann.

3. leikhluti Real Madrid setur þriggja stiga körfu en gestirnir minna á sig með troðslu á hinum endanum. Þrjár mínútur eftir af leikhlutanum. Staðan er 58-50.

3. leikhluti Sóknarleikur gestanna gengur afar illa. Liðið hefur aðeins skorað fjögur stig fyrstu fimm mínútur hálfleiksins. Jón Arnór hvílir í augnablikinu. Staðan er 54-44.

3. leikhluti Real Madrid hefur byrjað síðari hálfleikinn mun betur. Liðið leiðir nú 53-44 og gestirnir frá Zaragoza taka leikhlé. Jón Arnór hefur skorað sjö stig fyrir Zaragoza.

Hálfleikur Heimamenn leiða í hálfleik 42-40. Það getur allt gerst í Madríd í kvöld.


Tengdar fréttir

Jón Arnór mögulega sterkasti varnarmaður liðsins

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs í Þorlákshöfn, þjálfaði Jón Arnór Stefánsson í yngri flokkum KR. Hann segir um sögulegan viðburð að ræða þegar Jón Arnór og félagar í CAI Zaragoza mæta Real Madrid.

Vinir fyrir lífstíð í Zaragoza

Jón Arnór Stefánsson og félagar í CAI Zaragoza mæta stórliði Real Madrid í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum efstu deildar spænska körfuboltans í kvöld. Jón Arnór og félagar ætla að njóta augnabliksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×