Körfubolti

Krstic: Þessi sigur var fyrir Natösu Kovacevic

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nenad Krstic.
Nenad Krstic. Mynd/AFP
Nenad Krstic, fyrirliði serbneska landsliðsins í körfubolta, tileinkaði körfuboltakonunni Natösu Kovacevic sigur Serba á Lettlandi á Evrópumótinu í körfubolta í Slóveníu í dag. Servar unnu Letta þá 80-71 og tryggðu sér sæti í milliriðli keppninnar.  

Natasa Kovacevic er 19 ára körfuboltakona frá Serbíu og leikmaður ungverska liðsins Uni Gyor. Hún slasaðist illa í bílslysi á laugardaginn þegar rúta með allt Uni Gyor liðið lenti í árekstri á leið í æfingaleik.

Þjálfari og liðstjóri liðsins létust í slysinu og það þurfti að taka vinstri fótinn af Natösu Kovacevic. Allir leikmenn Uni Gyor slösuðust í slysinu en mismikið og enginn meira en Kovacevic.

„Þessi sigur var fyrir kollega okkar Natösu Kovacevic. Þessi harmleikur hefur haft mikil áhrif á okkur alla og hugur minn er hjá henni," sagði Nenad Krstic sem var frábær í leiknum og skoraði 25 stig.

Natasa Kovacevic var á sínu fyrsta tímabili með Uni Gyor liðinu en hún var ein efnilegasta körfubolta Serba og skoraði meðal annars 14,1 stig að meðaltali með serbenska unglingalandsliðinu á EM 20 ára liða í sumar.

Kovacevic var með 16,3 stig að meðaltali með Rauðu Stjörnunni á síðasta tímabili og fékk í framhaldinu samning hjá ungverska liðinu.


Tengdar fréttir

Alvarlegt slys hjá mótherjum Helenu | Tveir látnir

Ungverskir fjölmiðlar greina frá því að rúta með liðsmönnum kvennaliðs Gyor í körfubolta hafi hafnað utan vegar í dag. Tveir eru látnir og þurfti að taka fótinn af einum leikmanna liðsins við hné.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×