Handbolti

Strákarnir hans Kristjáns byrja tímabilið vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Óli Heimsson skoraði fjögur mörk í kvöld.
Heimir Óli Heimsson skoraði fjögur mörk í kvöld. Mynd/Heimasíða Eskilstuna Guif
Eskilstuna Guif, lið Kristjáns Andréssonar, byrjar tímabilið vel en liðið vann níu marka útisigur á Redbergslids IK, 31-22, í kvöld í fyrstu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í handbolta. Þrír íslenskir leikmenn spila með Eskilstuna Guif.

Heimir Óli Heimsson átti flottan leik en hann skorað fjögur mörk úr fjórum skotum fyrir Eskilstuna Guif. Haukur Andrésson, yngri bróðir Kristjáns, komst ekki á blað í þessum leik en fiskaði eitt víti alveg eins og Heimir.

Markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson gekk til liðs við Eskilstuna Guif í sumar og spilaði þarna sinn fyrsta leik í sænsku úrvalsdeildinni. Aron varði 3 skot (af 15, 20 prósent) og fann sig ekki nógu vel í þessum leik en það kom ekki að sök.

Guif komst í 2-0 og 5-2 og var síðan 18-12 yfir í hálfleik eftir að hafa skorað fimm síðustu mörkin í fyrri hálfleik. Sigur liðsins var síðan aldrei í hættu í seinni hálfleiknum.  

Eskilstuna Guif datt út úr átta liða úrslitum úrslitakeppninnar á síðasta tímabili eftir að hafa komist í undanúrslitin tímabilið á undan og tapað úrslitaleiknum 2011. Liðið tapaði líka í úrslitunum 2009 og á enn eftir að vinna titilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×