Körfubolti

Hvaðan kom hetja Keflvíkinga í gær?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Ólafsson, tvítugur körfuboltamaður uppalinn í Fjölni, sló heldur betur í gegn í gær þegar hann tryggði Keflavík 88-85 sigur á Njarðvík í frábærum Reykjanesbæjarslag í Domnios-deild karla í körfubolta.

Þeir eru örugglega fleiri en færri sem eru að velta því fyrir sér hvaðan þessi strákur kom en hann er á sínu fyrsta ári með Keflavík. Falur Harðarson, formaður Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, þekkir strák talsvert betur en aðrir Keflvíkingar.

„Ég er búinn að þekkja Gunnar síðan að hann fæddist því systir mín á hann," segir Falur í samtali við Vísi. Gunnar spilar líka í treyju númer fjögur eins og Falur og setti niður þrist ala Falur 0,6 sekúndum fyrir leikslok í gær. Það er hægt að sjá körfuna með því að smella á tengilinn hér fyrir ofan.

Gunnar Ólafsson var með 5,1 stig og 1,6 fráköst að meðtali á 16,0 mínútum með Fjölni á síðasta tímabili og var þá aðeins í byrjunarliðinu í tveimur leikjum af 22.  

„Hann kom til mín til að fá ráð frá frænda sínum hvað hann átti að gera með sinn körfuboltaferil þegar Fjölnir féll úr úrvalsdeildinni.  Það kemur kannski engum á óvart hvað ég ráðlagði honum að gera," segir Falur.

Gunnar hefur verið í byrjunarliði Keflavíkurliðsins eftir að Magnús Þór Gunnarsson meiddist og er með 10,7 stig og 3,0 fráköst að meðaltali á 25,4 mínútum í leik.

Falur segir að með komu nýja þjálfarans, Andy Johnston, hafi allir fengið sama tækifæri til að vinna sér inn hlutverk í Keflavíkurliðinu.

„Það er bara það sem fæst með að fá nýjan þjálfara sem þekkir engan. Hann metur þig út frá því hvernig þú ert að leggja þig fram og hvað þú ert að gera," segir Falur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×